11.9.2009 | 19:17
Maraþonsvín
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson skrifaði grein um það hversu áreiðanleg guðspjöll Nýja testamentisins væru. Ég hef áður hrakið svipaðan málflutning frá öðrum presti.
Fyrstu rökin hans Þórhalls eru þau að höfundar guðspjallanna sýni fram á ótrúlega góða þekkingu á aðstæðum í Galíleu á tímum Jesú. Ég held að það nægi að benda á eitt dæmi til þess að hrekja þetta: Maraþonsvínin í Markúsarguðspjalli.
Í fimmta kafla Markúsarguðspjalli er sagt frá því þegar Jesús hittir andsetinn mann hjá borginni Gerasena. Jesús rekur auðvitað illu andana úr honum og þeir (vegna samnings við Jesú) fara í svínahjörð sem var þarna nálægt. Þegar illu andarnir fóru í svínin ruddist hjörðin, nær tveim þúsundum, fram af hamrinum í [Galíleuvatn] og drukknaði þar.
Gallinn við þessa frásögn er sá að Gerasena er í um það bil fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Galíleuvatni, þannig að samkvæmt Markúsarguðspjalli hafa þau þurft að hlaupa heilt Maraþon til þess að komast klettinum og vatninu.