9.8.2009 | 06:03
Dæmisögur og heimsendir
Ég hvet þig til að lesa dæmisögur Jesú um himnaríki td í Matteusarguðspjalli. Þar er Jesús ekki að tala um hvar maður endar eftri dauðann. Hann er að tala um ástand hér og nú, sem vex innra með þér og breytir þér og heldur áfram eftir dauðann.
Síðan vitnar Þórhallur í tvær ördæmisögur í Mt 13.31-33 og kemur með sína túlkun á þeim. Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að á undan og eftir þessum ördæmisögum eru aðrar dæmisögur um himnaríki, en í þar útskýrir Jesús sjálfur dæmisögurnar! Fjalla þær um hinstu örlög fólks við endi veraldar (himnaríki eða helvíti) eða eitthvað innra ástand?
Fyrst segir Jesús dæmisöguna um illgresið á akrinum:
Aðra dæmisögu sagði hann þeim: Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gjört. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu, að vér förum og tínum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína. (Mt 13.24-30)
Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum. Hann mælti: Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri. (Mt 13.36-43)
Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.47-50)
9.8.2009 | 05:41
Þórhallur fegrar Jesú
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson á það til að mistúlka biblíuna. Nýlega skrifaði hann um Samkynhneigð og kristna trú, þar segir hann þetta:
Jesús Kristur minnist reyndar aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Og hann talar heldur aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Þannig að það hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir hefur ekki legið þungt á honum. Honum var slétt sama.
Það er rétt að í guðspjöllunum er honum ekki eignuð nein ummæli sem tengjast samkynhneigð. En það er hins vegar fráleitt að álykta út frá því að hann hafi aldrei sagt neitt um samkynhneigð og að honum hafi verið slétt sama.
Ef við kíkjum á önnur ummæli hans, þá er hægt að komast að því hver skoðun hans hafi líklega verið, koma með rökstudda ágiskun. Jesús guðspjallanna er ekki líbó þegar það kemur að kynlífi og hjónabandi. Það eitt að horfa á konur í girndarhug er synd (Mt 5.27). Skilnaður kemur ekki til greina, nema auðvitað ef konan (ath ekki karlinn!) er ekki hrein mey [1].
Það er afar ólíklegt að manneskja með svona skoðanir myndi telja samkynhneigð vera góða og gilda. Það af leiðandi taldi Jesús samkynhneigð (eða samkynja kynlíf) að öllum líkindum vera synd.
Þórhallur bara að reyna að gera Jesús nútímalegri, að uppfæra hann. En það nægir honum ekki, hann kemur líka með afskaplega léleg rök gegn því kristna fólki sem gagnrýnir samkynhneigð (réttilega) á kristilegum forsendum:
Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla Testamentinu og hinu Nýja. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála í ljósi Jesú. Í fjallræðunni í Matteusarguðspjalli segir Jesús m.a. "dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir" og "Allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".
Til að byrja með er undarlegt að tala um að þetta sé í kristilegum dulbúningi. Þessar árásir eru ekki í kristilegum dulbúningi, þær eru kristilegar. Fólkið les biblíuna, sér að þar er samkynhneigð fordæmd og fordæmir þar af leiðandi samkynhneigð. Afskaplega kristilegt. Er gagnrýni stærstu kirkjudeilda heimsins (kaþólikkar, rétttrúaðir og hvítasunnumenn) á samkynhneigð bara í kristilegum "dulbúningi"?
Að túlka orð Jesú dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir þannig að það sé rangt að benda og gagnrýna hluti sem kristið fólk telur að séu syndsamlegir er út í hött.
Síðan skil ég ekki hvernig gullna reglan þýði að samkynhneigð sé allt í einu allt í lagi frá kristilegu sjónarhorni eða að kristið fólk ætti ekki að kalla synd sínu rétta nafni. Svona fjarstæðukennd rök benda til þess að Þórhallur finnur ekkert í orðum Jesú sem passar ekki við fordæmingar flestra kristinna kirkjudeilda á samkynhneigð.
Þórhallur ætti að sætta sig við að kristni er afskaplega neikvæð í garð samkynhneigðra og hætta að reyna að fegra Jesú.
[1] Clarence E. Glad, Matteusarguðspjall 19.3-15. Áherslur og samhengi. Fjölskyldan, hjónaband, einlíf og skírlífi í frumkristni, bls 3. "Þetta hafði afdrifaríkar afleiðingar, sér í lagi vegna þess að Jesús setti fram all róttæka endurskilgreiningu á hórdómi í þessu sambandi: Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema vegna porneia og kvænist annarri drýgir hór (moixeia) (19.9). Ýmsir hafa talið að með orðinu porneia sé hér verið að vísa til framhjáhalds konunnar. En í því tilviki hefði orðið moicheia líkega verið notað. Sennilegra er að porneia vísi til lagaákvæðisins í Tórunni sem heimilaði karli að hafna konu sem á brúðkaupsnóttinni gat ekki sýnt fram á að vera hrein mey (5. Mós. 22.13-21). Slík brúðarmey var sökuð um að hafa leikið hlutverk skækjunnar (ekporneuo, LXX) í húsi föður síns. Ef brúðurin var ekki hrein mey kom hjónaband ekki til greina og tók Jesús undir það sjónarmið."