4.6.2009 | 17:18
Í tilefni hvítasunnu
Í Postulasögunni er sagt frá því að eftir uppstigningu Jesú hafi lærisveinarnir safnast saman og þá hafi þeir fyllst heilögum anda:
Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. (P. 2.4)
Færri vita að í Jóhannesarguðspjalli fá lærisveinarnir heilagan anda frá Jesú þegar hann birtist þeim upprisinn:
Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda. (Jh 20.22)
Höfundur (eða -ar) Jóhannesarguðspjalls könnuðust líklega ekkert við þessa frásögn í Postulasögunni og fundu því annan stað til þess að láta lærisveinana fá heilagan anda.
Það er afar skemmtilegt að sjá hvernig trúmenn bregðast við þessari mótsögn. Fyndnasta skýringin sem ég hef séð er frá einhverjum ókurteisum bandarískum trúvarnarmanni sem Mofi hefur stundum vísað í, þetta er útskýringin hans:
Helms incorrectly sees Jesus imparting the Holy Spirit to the disciples in John 20:22 -- this was not an impartation but a symbolic enactment of the Pentecost event #
Það er afar gaman að ímynda sér þetta: Hinn upprisni Jesús birtist lærisveinunum segir við þá Meðtakið heilagan anda! um leið og hann andar á þá. Ekkert gerist. Eftir smá stund segir einn lærisveinanna: Veistu hvað Jesús, ég finn engan mun á mér. Jesús útskýrir fyrir vitlausa lærisveininum: Auðvitað ekki, ég var bara að leika á táknrænan hátt atburði hvítasunnu.
4.6.2009 | 15:30
Tvískinnungur bahæja
Það kom mér á óvart að fulltrúi bahæja* á friðarstundinni í Hallgrímskirkju hafi verið kona. Ég skil nefnilega ekki hvernig konur geta verið bahæjar.
Því jafnvel þó að þeir segist styðja jafnrétti kynjanna, þá mega bara karlmenn vera fulltrúar í æðstu stofnun trúarinnar. Ástæðan? Einhver 19. aldar persi sagði það og þess vegna er þetta óbreytanlegt viðhorf í bahá'í trú.
Myndi einhver taka stjórnmálaflokk alvarlega sem segðist vera fylgjandi jafnrétti kynjanna, en vildi banna konum að bjóða sig fram til Alþingis?
Auðvitað ekki og þess vegna tek ég ekki mark á bahæjum, nema þeim sem viðurkenna að trúin þeirra er gegn jafnrétti kynjanna.
*Ég veit að bahæjar vilja skrifa þetta og önnur orð öðruvísi, en ég geri það ekki.