15.4.2009 | 06:28
Með kærleikann að vopni
Gunnar Jóhannesson er einn uppáhalds presturinn minn. Ástæðan er sú að ólíkt flestum öðrum ríkiskirkjuprestum virðist hann þora að tjá sig opinberlega um trúmál, en reyndar hefur hann ekki svarað mér þegar ég hrek skrifin hans. Þegar maður skoðar málflutning Gunnars, þá er kannski skiljanlegt að hinir prestarnir þori ekki að tjá sig um gagnrýni á kristna trú, svörin hans eru stundum svo ótrúlega klikkuð. Ég rakst á fínt dæmi áðan, Gunnar er að útskýra fyrir okkur hvers vegna kærleiksríkur guð virðist oft á tíðum vera geðsjúkur óþokki í biblíunni;
Enda þótt ýmsar frásagnir Gamla testamentisins séu óþægilegar og jafnvel skelfilegar eins og þær standa þá þarf ekki að taka þær beinlínis bókstaflega til þess að átta sig á einmitt þeim boðskap þeirra. Frásagan af Nóaflóðinu og tortímingu Sódómu og Gómorru koma til hugar. Þar er það ekki Guð sem kemur hinu illa til leiðar, hann er sá sem bregst við hinu illa. Slíkar frásögur segja meira um illsku manninn heldur en Guðs. Í þessu samhengi má rifja upp orð Páls postula í bréfi hans til Rómverja.
"Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og illsku manna sem kefja sannleikann með ranglæti. Það sem vitað verður um Guð blasir við þeim. Guð hefur birt þeim það. Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar. Þeir þekktu Guð en hafa samt ekki tignað hann sem Guð né þakkað honum heldur fylltu þeir hugann af hégiljum og skynlaust hjarta þeirra hjúpaðist myrkri." (Rm 1.18-21)
Guð vill útrýma hinu illa og berst fyrir hinu góða. En það gerir hann með kærleikann að vopni og leiðarljósi. #
Laun guðs í Nóaflóðinu og tortímingu Sódómu og Gómorru var auðvitað sú að drepa nánast alla, en hann gerði það samt með kærleikann að vopni og leiðarljósi.