19.7.2008 | 00:00
Að byggja á flekaskilum
Hversu góð eru þau stjórnvöld, sem hafa leyft byggingar við strendur rétt við flekaskil?
Tæknilega séð voru þetta reyndar flekamót, en ég held að það sé hægt að gera ráð fyrir því að presturinn eigi við staði þar sem flekar mætast og ég skil ekki hvers vegna það sé óábyrgara að byggja við strendurnar en ekki inn í löndunum sjálfum, jarðskjálftar drepa ekki bara fólk við strendur. Kíkjum á kort og athugum hvar presturinn vill ekki að stjórnvöld leyfi fólki að búa:

Nú sýnist mér að klerkurinn vilji flytja fólk burt frá stórum hluta miðameríku (Mexíkóborg er fræg fyrir að vera á hættulegum stað, bara þar búa næstum því 20 milljónir), vesturströnd Bandaríkjanna, nú auðvitað Súmötru (45 milljónir) eða bara alla Indónesíu (230 milljónir), Japan er auðvitað stórhættulegur staður (125 milljónir), síðan erum við alltaf að frétta af jarðskjálftum í Íran (70 milljónir). Flestir mannskæðustu skjálftar sögunnar hafa átt sér stað í Kína. Jarðskjálftinn í Lissabon í Portúgal 1755 er síðan mjög frægur og ekki má gleyma S-Ítalíu.
En hvers vegna að einblína á jarðskjálfta? Er ekki allt í lagi að leyfa byggð þar sem jarðskjálftar eru hættulegir, en allt í lagi að leyfa byggð þar sem aðrar náttúruhamfarir eru hættulegar? Hvað með flóð? Engin byggð í Bangladesh framar. Hvað með hvirfilbyli? Engin byggð í Karabíska hafinu og austurströnd Bandaríkjanna.
Hvar á allt þetta fólk að búa? Eflaust er pláss fyrir það í Síberíu, en ef það hefði verið þétt byggð þar árið 1908, þá hefði loftsteinn eða halastjarna drepið hundruði þúsunda ef ekki milljóna.
Staðreyndin er sú að stór hluti jarðarinnar er hættulegur staður og stór hluti jarðarbúa neyðist til þess að lifa á hættulegum stöðum. Eina ástæðan fyrir því að presturinn kemur með svona heimskulega tillögu er sú að hann þarf að bjarga guðinum sínum.
Kristið fólk trúir því að algóður guð hafi skapað jörðina. Það á auðvitað í erfiðleikum með að útskýra það hvers vegna algóður guð myndi skapa hættulega jörð, og þess vegna koma prestar eins og Sigurður Árni með svona bull.