20.3.2008 | 15:29
Skjótt skiptist skoðun í presti
Eins og Magnús Bergsson benti á, þá var trúvarnarpresturinn Gunnar Jóhannesson í viðtali hjá Ævari Kjartanssyni síðastliðinn föstudag. Það er auðvitað margt sem mætti benda á í þessi viðtali við Gunnar (ég hef bent á suma af verstu göllunum í málflutningi hans í þessari grein), en mér fannst merkilegast að heyra að Gunnar hefur algjörlega skipt um skoðun hvað varðar samband kristinnar trúar og skynsemi.
Fyrir einu og hálfu ári síðan kvartaði Gunnar undan því í blaðagreinum að Dawkins (sem þá hafði nýlega komið til landsins) áttaði sig ekki á því að trú væri í eðli sínu órökrétt. Þetta er reyndar afar undarleg kvörtun þar sem Dawkins gagnrýnir trú einmitt fyrir það að vera órökrétta. En þetta sagði Gunnar:
Þá staðreynd að guðstrú verður ekki studd rökum tel ég alls ekki gagnrýni verða né gera lítið úr henni sem slíkri þar sem guðstrú er einfaldlega þannig farið og gef ég því lítið fyrir gagnrýni Dawkins hér.
....
Þversögnin er sú að jafnvel einstaklingur sem trúir á Guð getur tekið undir með guðleysingja að tilvist Guðs gangi þvert á öll rök, því ef unnt væri að rökstyðja guðstrú með einhverjum hætti þá væri ekki um trú að ræða. Rökstudd guðstrú er ekki til!
Í viðtalinu síðastliðinn sunnudag virtist Gunnar vera búinn að skipta algjörlega um skoðun, hann reyndi til dæmis að rökstyðja tilvist guðs! Og nú segir hann þetta:
Þannig að það sem að ég hef verið að gera eða leitast við að gera er einmitt þetta. Kristin trú er fólgin í staðhæfingum og trúvörn er að sínu leyti viðleitni til þess að útskýra þessar staðhæfingar reyna að þýða þær yfir á skynsamlegt mál fyrir hugsandi fólk og hjálpa fólki í raun og veru að fallast á þessar staðhæfingar átta sig á sannleiksgildi þeirra. Þannig að það er það sem er svo merkilegt. Trúin er nefnilega ekkert stökk út í loftið og það er ekkert í biblíunni sem segir að trú sé þannig. Við eigum miklu einmitt frekar að stökkva út úr myrkrinu og inn í ljósið.
....
[Trúvörn er að]...svara, færa rök til baka, standa tilteknu ákveðnu sjónarmiði, það er það sem að trúvörn er. Þetta er ekki beint tæki til að snúa fólki til trúar í þeim skilningi, en þetta er leið til þess að sýna fram á það að kristnar staðhæfingar, staðhæfingar trúarinnar, hin kristna heimsskoðun standi á ákveðnum grunni sem já, skynsamlegt að taka til greina.
Fyrir einu og hálfu ári síðan sagði hann að ímynduð skoðun Dawkins á trú væri að "misskilja gróflega grundvallareðli þess að trúa" og að ástæðan þessa misskilnings væri vitni um skort á heimspekilega þekkingu sem þarf til þess að geta rætt um trú.
Nú hlýt ég að spyrja mig hvort presturinn Gunnar misskilji núna gróflega grundvallareðli þess að trúa eða þá hvort hann hafi gert það fyrir einu og hálfu ári síðan.