Rétt vitlaus klukka

Það er sagt að vitlaus klukka sé rétt að minnsta kosti tvisvar á sólarhring. Á sama hátt á ofsatrúarfólk það til að rekast á sannleikskorn. Í umræðum hjá Jakobi guðfræðinema kom Kristinn Ásgrímsson, „safnaðarhirðir“ Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík, með athugasemd þar sem hann sagði meðal annars þetta:

Ég minni á að eftir dauða [Jesú] voru [lærisveinarnir] niðurbrotnir menn, Pétur byrjaður á sjónum aftur og meistari þeirra var dauður. 

Það er hárrétt hjá Kristni að þegar lærisveinarnir eru sagðir vera farnir að stunda sjómennsku aftur í Galíleuvatni þá er tilgangur sögumannsins að láta okkur vita að þeir séu búnir að gefa upp alla von, meistarinn dáinn og ekkert betra að gera en að snúa aftur til lífsins sem þeir höfðu áður en þeir hittu Jesú.

Vandamálið er hins vegar að þegar Pétur er byrjaður aftur á sjónum (21. kafli Jh), þá er Jesús þegar búinn að birtast lærisveinunum tvisvar! Fyrst án Tómasar (Jh 20.19-23) og síðan þegar Tómas er á staðnum (Jh 20.24-29). Í sögunni þar sem Jesús birtist lærisveinunum þegar þeir eru á sjónum er meira að segja sagt að „þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.“ (Jh 21.14)

Sagan af því þegar Jesús birtist lærisveinunum á Galíleuvatni gerir augljóslega ráð fyrir því að þeir séu „niðurbrotnir menn“ (eins og Kristinn orðar það), að þeir hafi enn ekki séð hinn upprisna Jesú. En í guðspjallinu er sagt að þeir hafi þegar séð hann tvisvar.

Þetta er augljós mótsögn og þýðir að annað hvort sé 21. kaflinn sé síðari tíma viðbót (enda hljóma lok 20. kaflans eins og endir á bók) eða þá að höfundurinn hafi tekið sögu sem var um fyrsta skiptið sem Jesús hitti lærisveinana og sett hana eftir tveimur öðrum birtingum. 

Bloggfærslur 8. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband