Að grýta í neyð

Í umræðum við frábæra grein eftir Jóhann Pál Jóhannsson reynir Helgi Guðnason (sem er með BA gráðu í guðfræði og er víst að rembast við að klára mastersritgerð í sama fagi #) að útskýra hvers vegna guðinn hans fyrirskipaði grýtingar í Gamla testamentinu. Gefum Helga orðið:

Hvað varðar grýtingar er það augljóst af Gamla Testamentinu að það voru neyðarúrræði, ég hvet þig til þess að skoða Gamla Testamentið og telja hversu oft er sagt frá því að einhver hafi verið grýttur, ég man ekki eftir fleiru en einu tilfelli svona fljótt hugsað, og mig rámar meira að segja bara í það...

Förum að hvatningu Helga og skoðum Gamla testamentið. Hérna er eitt dæmi sem er samkvæmt Helga "augljóslega neyðarúrræði":

Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. En Drottinn sagði við Móse: ,,Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar.`` Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse. (5Mós 15.32-36)

Guð þurfti augljóslega að láta grýta þennan illa innrætta mann fyrir að dirfðast að brjóta gegn helgi hvíldardagsins með því að safna saman eldivið. Annað dæmi um "augljóst neyðarúrræði":

Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni, og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: ,,Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,`` ....  En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið, þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. (5Mós 22.13-14, 20-21)

Og annað "augljóst neyðarúrræði":

Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ,,Vér skulum fara og dýrka aðra guði,`` þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. (5Mós 13.6-10)

Það eru fleiri dæmi í Gamla testamentinu, en ég held að allt fólk með sæmilega heilbrigða siðferðiskennd, sé sammála því að það sé rangt (og alls ekki "augljóst neyðarúrræði"!) að grýta:

  1. fólk fyrir að vinna á hvíldardeginum
  2. konur (átti örugglega ekki við um menn!) fyrir að vera ekki hrein mey þegar þær giftast
  3. einhvern náinn þér fyrir að boða þér aðra trú en trú á Jahve.

Vonum að Helgi sé sammála því að þessi dæmi séu ekki neyðarúrræði, vonandi hefur hann bara ekki kynnt sér grýtingar í Gamla testamentinu. En ef Helgi sér þessi dæmi og áttar sig á því að þessi "neyðarúrræða"-vörn gengur ekki upp, hvernig ætli hann bregðist við því? Eðlilegast væri auðvitað að játa að þetta eru grimmileg lög fornaldarþjóðar. Ég spái því samt að hann myndi ekki fallast á það, hann mun koma með einhverja fjarstæðukennda afsökun. Það er afskaplega fyndið að fólk sem segist aðhyllast óbreytanlegt og hlutlægt siðferði frá algóðum guði reyna að réttlæta svona óhæfuverk.

ps. ekki vitna í söguna af Jesú og hórseku konunni, hún var ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli (fölsun!)


Bloggfærslur 24. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband