27.11.2007 | 23:50
Hin óeinstaka upprisa Jesú
Ef þú hittir einhvern tímann kristinn mann sem segir að upprisa Jesú hafi verið einstakur viðburður, þá veistu að viðkomandi treystir annað hvort ekki guðspjöllunum eða hefur þá ekki lesið þau almennilega, nánar til tekið hefur hann ekki lesið Matteusarguðspjall almennilega. Í því guðspjalli eru nefnilega heilmargar upprisur!
En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27:50-53)
Til að byrja með þá voru þessir helgu menn afskaplega kurteisir, eftir að þeir risu upp frá dauðum voru þeir nógu kurteisir til þess að bíða eftir því að Jesús væri risinn upp frá dauðum (~1,5 sólarhringi síðar) til þess að kíkja á miðbæinn. Höfundum hinna guðspjallanna fannst þetta víst ekki nógu merkilegur atburður til þess að minnast á hann, ekki heldur sagnaritarar sem skrifuðu um atburði þessa tíma.
Ég held að það þurfi ekki að vera öfgafullur ofsatrúleysingi eins og ég til þess að sjá að þetta gerðist augljóslega ekki. Ef þetta gerðist ekki, þá er augljóslega ekki hægt að treysta þessu guðspjalli.