16.11.2007 | 20:04
Þegar Jesús laug
Kristið fólk á auðvitað afar erfitt með að viðurkenna að í guðspjöllunum er frásögn af því þegar Jesús lýgur. Annars vegar vegna þess að það er auðvitað óþægileg tilfinning að hugsa til þess að vera sem ætlar að kvelja suma að eilífu sé kannski bara að ljúga þegar hún segir að hún muni ekki kvelja þig. Hins vegar vegna þess að Jesús á að hafa verið syndlaus og síðast þegar ég athugaði, þá var það talið synd að ljúga. En kíkjum á frásögnina:
Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin. Þá sögðu bræður hans [Jesú] við hann: ,,Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir. Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum.`` Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann. Jesús sagði við þá: ,,Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími. Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond. Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.`` Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu. Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun. (Jóh 7.2-10)
Jesús segir bræðrum sínum að hann fari ekki til hátíðarinnar, síðan þegar þeir eru farnir, þá fer hann samt á laun. Hann laug augljóslega að bræðrum sínum.