Jahveh er 'undirguð' í nýju þýðingunni.

'Sannkristnu fólki' er skiljanlega illa við að í nýju þýðingunni séu breytingar sem það telur, ef til vill réttilega, að séu að miklu leyti gerðar vegna pólitísks rétttrúnaðar. En í fimmtu Mósebók leynast vers sem ættu að gera þetta fólk enn reiðara, því þar er guð kristinna manna gerður að undirsáta aðalguðsins:

Þegar Hinn hæsti fékk guðunum þjóðirnar, er hann greindi mennina að, þá setti hann þjóðunum landamerki eftir fjölda guðanna. En lýður Drottins kom í hlut hans, Jakob varð erfðahlutur hans. (5Mós 32.8-9)

Í gömlu þýðingunni stóð:

Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona. Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans. (5Mós 32.8-9)

Í nýju þýðingunni skiptir 'Hinn hæsti' mannfólkinu á milli 'litlu' guðanna. Jahveh ("Drottinn") fær Ísraelsmenn. Afar skiljanlegt.

Gamla þýðingin var hins vegar óskiljanlegt. Hvers vegna ætti 'Hinn hæsti' að skipta heiminum eftir fjölda 'Ísraels sona'?

Gamla þýðingin byggði á hinum svokallaða masóretíska texta, en elstu handritin hans eru frá ~10. öld. Það sem ég feitletraði í versunum var 'sona Ísraels' í masóretíska textanum.

Í nokkrum eintökum LXX (grísk þýðing sem er eldri en masóretíski textinn) stóð hins vegar 'synir guðs'. Þegar Dauðahafshandritin fundust síðan, þá kom í ljóst hebreskur texti sem var um það bil þúsund árum eldri en elstu masóretísku textarnir. Það vildi svo til að þeir textar voru sammála gríska textanum: synir guðs.

Nú er bara spurning hvort Þjóðkirkjan taki upp trú á heilaga 'ferningu': Jahveh, Herra Andi, Jesús og afi hans, Hinn hæsti (El-eljon).


Bloggfærslur 22. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband