Undarleg elska

Þegar trúmenn reyna að koma á samræmi á milli hinna ýmsu trúarkenninga sem þeir aðhyllast þá verður útkoman oft frekar óhugnaleg.

Nýlega var ég að rökræða við nýjasta trúvarnarmanninn hérna á Moggablogginu um hugmyndir hans um að aðeins trúmenn gætu aðhyllst algildar siðareglur, það er að segja siðareglur sem gilda alltaf, alveg óháð ástæðum.

Í umræðunum sagði hann að ein þessara reglna væri sú að maður ætti að elska náungann eins og sjálfan sig.

Allt í lagi. Ég spurði þá hvort að það hafi ekki verið rangt af Jósúa og hans mönnum að ráðast inn í Kanaanland og drepa alla þá íbúa landsins sem þeir gátu, konur, menn og börn.

Honum fannst það ekki vera rangt (sjá athugasemd 136). Þannig að það fellur undir að "elska náungann eins og sjálfan sig" að drepa hann og alla fjölskyldu hans. Þetta finnst mér vera mjög óhugnalegt.

Svona tal í anda 1984 minnir mig á þegar ríkiskirkjuprestur talaði um að guðinn hans hefði sent Nóaflóðið og eytt Sódómu og Gómorru "með kærleikann að vopni".


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband