22.8.2011 | 11:48
Barnaskapur og ofbeldi gegn börnum
Ég skrifaði nýlega grein á Vantrú, Vöndur agans, í tilefni þess að kristin, bandarísk hjón börðu eitt barnið sitt til bana. Í greininni bendi ég einfaldlega á að biblían hlýtur að hafa verið stór áhrifavaldur. Þar er nefnilega hvatt til þess að "berja vitið í börn". Hérna eru tvö dæmi:
Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma. (Okv 13.24)
Aga þú son þinn, því að enn er vonm en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann (Okv 19.18)
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson kom með athugasemd og sagði: "Ótrúlega barnaleg grein eins og Hjalta Rúnari er von og vísa. Einföld, þröngsýn og barnaleg." Þegar ég bað Þórhall um að koma með efnislega gagnrýni þá kom hann með tvo punkta:
1. Þessi vers ber að lesa í sögulegu og menningarlegu samhengi.
Ég get alveg tekið undir það. Þegar við lesum eitthvað fornrit eða skoðum einhver ummæli fornaldarmanna, þá eigum við alls ekki að gera ráð fyrir því að viðkomandi aðili hafi hugsað eins og 21. aldar maður.
Þegar ég bað Þórhall um að útskýra hverju þessi punktur breytti þá var þetta svarið: "Hið sögulega samhengi breytir að sjálfsögðu ekki því að þarna er verið að mæla með líkamlegum refsingum barna. En hið sögulega samhengi minnir okkur á að þegar þessir textar voru ritaðir þótti slíkt sjálfsögð uppeldisaðferð - og þótti það víst hér á landi þar til fyrir ekki svo mörgum árum."
Ég get alveg tekið undir þetta. Það kemur manni alls ekki á óvart að fornaldarmenn hafi talið þetta vera "sjálfsagða uppeldisaðferð". Þetta breytir samt auðvitað ekki merkingu textanna, og því skil ég ekki hvers vegna Þórhallur var á annað borð að koma með þennan punkt.
2. Þessi vers ber að lesa "í ljósi Krists"
Þórhallur segist geta séð að Jesús hafi verið á móti líkamlegum refsingum barna út frá ummælum Jesú á borð við: "Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig" og "Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".
Gallinn við þessi rök Þórhalls er sá að það er ekki hægt að draga ályktanir út frá þessum almennu reglum um eitthvað jafn þröngt og hvort það sé rétt að beita líkamlegum refsingum í uppeldisskyni, án þess að gefa sér aðrar forsendur.
Svo að ég einblíni á fyrri regluna, þá þyrfti röksemdafærslan að vera einhvern veginn svona:
1. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.
2a. Að berja börn í uppeldisskyni er ekki elskulegt.
-> Maður á ekki að berja börn í uppeldisskyni.
Maður getur ekki tileinkað Jesú niðurstöðuna af því að forsendu 2a er hvergi að finna í orðum Jesú. Maður gæti alveg eins komið með þessa röksemdafærslu:
1. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.
2b. Að berja börn í uppeldisskyni er elskulegt.
-> Maður á að berja börn í uppeldisskyni.
Ef við skoðum Orðskviðina, þá sjáum við einmitt að þar er forsenda 2b boðuð: "Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma. (Okv 13.24)".
Af þessu er ljóst að 1 dugar eitt og sér alls ekki til að álykta eitthvað um réttmæti þess að berja börn í uppeldisskyni. "Ljós Krists" dugar ekki til þess að "trompa" þessi ljótu vers í Orðskviðunum.
Ef við förum eftir fyrri punktinum hans Þórhalls, að lesa texta í sögulegu og menningarlegu samhengi, hvort ætli fornaldarmaðurinn Jesús hafi aðhyllst skoðun fornaldarmanna og langflestra manna upp að síðari hluta 20. aldar (2b) eða skoðun nútímamanna (2a)? Mér finnst miklu líklegra að fornaldarmaðurinn Jesús hafi talið það vera barninu fyrir bestu að "berja vit í það".
Ég reyndi að útskýra þetta fyrir Þórhalli í athugasemdum við greinina, en ég fékk engin svör við þessu, heldur bara ásakanir um að ég væri barnalegur.
Ég held að gallinn í hugsanagangi Þórhalls (og langflestra "aðdáenda" Jesú) sé sá að hann er í raun og veru að beita þessari röksemdafærslu:
1. Jesús var æðislegur og frábær gaur.
2. Æðislegum og frábærum gaurum finnst rangt að berja börn í uppeldisskyni.
-> Jesú fannst rangt að berja börn í uppeldisskyni.
Sú hugmynd að Jesús hafi verið æðislegur og frábær gaur er hugmynd sem er hamrað inn í hausinn á fólki (krökkum) af kirkjunnar fólki og þess vegna hefur það mynd af Jesú sem fullkomnum manni. Og svona æðislegur gaur eins og Jesús hlýtur að hafa verið á móti því að berja börn í uppeldisskyni!
Það er að minnsta kosti ljóst að bandarísku foreldrarnir sem börðu barnið sitt til bana, eins og flest allt kristið fólk í sögunni, hefur ekki séð neina mótsögn í því að elska náungann og að berja börn í uppeldiskyni.
17.8.2011 | 12:13
Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla
Mér finnst grein dagsins á Vantrú vera afskaplega merkileg, lesið hana endilega: Jón eða séra Jón
Annars vegar höfum við fagran áróður frá ýmsum starfsmönnum eða velunnurum ríkiskirkjunnar um að hún sé fyrir alla alveg óháð því hvort þeir séu meðlimir eða ekki, en hins vegar höfum við staðreyndir málsins, að kristin brúðhjón (mormónar) fengu ekki að nota kirkju af því að trúfélagsaðild þeirra var ekki rétt.
Í Vantrúargreininni er síðan minnt á eldra mál þar sem barn sem var ekki skráð í ríkiskirkjuna fékk ekki að fermast.
Mér finnst sjálfsagt að trúfélög séu ekki skylduð til þess að sinna fólki sem er ekki meðlimir í viðkomandi trúfélagi, en starfsmenn ríkiskirkjunnar ættu þá að viðurkenna það opinberlega í staðinn fyrir að koma með ósannan áróður um annað, sérstaklega ekki þegar þessi ósannindi eru notuð til að reyna að rökstyðja forréttindastöðu ríkiskirkjunnar.