Prestarnir koma á óvart

Ég vil bara benda fólki á grein dagsins á Vantrú. Þar er greint frá mjög áhugaverðri efnisgrein sem ég rakst á þegar ég var að skoða fundargerðir stjórnar Prestafélags Íslands.

Þegar maður heldur að prestarnir geti ekki komið meir á óvart, að ríkiskirkjan geti ekki toppað sig í hræsninni, þá finnur maður alltaf eitthvað nýtt til þess að minna sig á hve frábært það er að vera ekki skráður í þennan félagsskap.


Hin óskeikula biblía

Ég skrifaði grein í dag á Vantrú vegna ummæla ríkiskirkjuprests nokkurs. Hann sagði meðal annars:

Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn. #

Já, þetta er hvorki Gunnar í Krossinum né Snorri í Betel. Þetta er þjóðkirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson.

Það eru svo margar spurningar sem mig langar að spyrja Gunnar (ekki í Krossinum, heldur þjóðkirkjuprestinn) að, er það til dæmis satt og rétt að Gyðingar séu „guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir“ (1 Þess 2.15)? Er það satt og rétt að guðinn hans hafi fyrirskipað þjóðarmorð eins og fram kemur á mörgum stöðum í Gamla testamentinu? Eiga konur að vera undirgefnar eiginmönnum sínum? Sendi guð birnur til að brytja í spað 42 stráka?

Ég lét prestinn vita af greininni, nú er bara að sjá hvort hann svari. Mér finnst mjög líklegt að hann geri það ekki. Gunnar má reyndar eiga það að hann hefur verið duglegri en aðrir prestar við að reyna að röksyðja trúarskoðanir sínar, þannig að það er smá von.


Undarlegar klippingar

Ég hef áður bent á það hversu oft Þjóðkirkjan slysast til að klippa út óþægileg vers þegar hún velur hvaða texta á að lesa upp í messum. Í útvarpsmessunni í dag var þetta lesið:

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.` Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?` Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.` (Mat 25.31-40)

Það kemur manni svo sem ekki á óvart að ríkiskirkjufólkið skammist sín fyrir síðari hluta þessarar dæmisögu, áframhaldið er svona:

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.` Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?` Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.` Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs." (Mat. 25.41-46)

Af hverju gefur ríkiskirkjan ekki bara út einhverja styttri útgáfu af biblíunni þar sem hún er búin að klippa allt þetta í burtu?


Er kynþáttahatur synd?

Í gær var lesinn texti í kirkjum landsins þar sem Jesús kallar konu hund af því að hún er ekki Gyðingur.

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. (Mat 15.21-28)

Ríkiskirkjupresturinn Guðrún Karlsdóttir segir þetta um þessi ummæli:

[Jesús] lítur upp og hreytir ónotum í konuna, er dónalegur. Hann líkir henni við hund.

Hún reynir síðan að afsaka þessa framkomu með því að segja að Jesús hafi bara verið þreyttur og pirraður:

Guð varð manneskjan, Jesús Kristur með öllu sem því fylgdi. Jesús varð þreyttur eins og við . Hann varð pirraður eins og við. 

Þannig að samkvæmt henni gerðist þetta, Jesús var pirraður og þreyttur, og þess vegna kallaði hann konu sem var að grátbiðja hann um að lækna dóttur sína hund.

Flokkast það ekki sem synd hjá þessum presti að nota svona rasista-uppnefni? Var Jesús þá ekki syndgari í hennar augum? Þetta endar auðvitað með ósköpum fyrir hugmyndakerfið sem þessi prestur á að vera að boða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband