Þjóðkirkjan skammast sín fyrir biblíuna

Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar, tru.is, er almanak með morgun- og kvödlestra. Morgunlestur gærdagsins var Ef 5. 21, 25-32. Maður tekur strax eftir því að það er búið að klippa út vers 22-24. Hérna er kaflinn sem um ræðir, versin sem Þjóðkirkjan vill ekki að fólkið les er feitletrað:

 

21Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: 22Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. 23Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. 24En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.

25Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, 26til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. 27Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 28Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. 29Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, 30því vér erum limir á líkama hans.

31"Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður." 32Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 33En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.

Þjóðkirkjunni er augljóslega illa við þessi vers, en engar áhyggjur í nýju þýðingunni eru konurnar ekki lengur undirgefnar, þær eru auðsveipnar og lúta eiginmönnum sínum. Kannski mun Þjóðkirkjan þora að vitna í þessi vers í nýju þýðingunni.


Jahveh er 'undirguð' í nýju þýðingunni.

'Sannkristnu fólki' er skiljanlega illa við að í nýju þýðingunni séu breytingar sem það telur, ef til vill réttilega, að séu að miklu leyti gerðar vegna pólitísks rétttrúnaðar. En í fimmtu Mósebók leynast vers sem ættu að gera þetta fólk enn reiðara, því þar er guð kristinna manna gerður að undirsáta aðalguðsins:

Þegar Hinn hæsti fékk guðunum þjóðirnar, er hann greindi mennina að, þá setti hann þjóðunum landamerki eftir fjölda guðanna. En lýður Drottins kom í hlut hans, Jakob varð erfðahlutur hans. (5Mós 32.8-9)

Í gömlu þýðingunni stóð:

Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona. Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans. (5Mós 32.8-9)

Í nýju þýðingunni skiptir 'Hinn hæsti' mannfólkinu á milli 'litlu' guðanna. Jahveh ("Drottinn") fær Ísraelsmenn. Afar skiljanlegt.

Gamla þýðingin var hins vegar óskiljanlegt. Hvers vegna ætti 'Hinn hæsti' að skipta heiminum eftir fjölda 'Ísraels sona'?

Gamla þýðingin byggði á hinum svokallaða masóretíska texta, en elstu handritin hans eru frá ~10. öld. Það sem ég feitletraði í versunum var 'sona Ísraels' í masóretíska textanum.

Í nokkrum eintökum LXX (grísk þýðing sem er eldri en masóretíski textinn) stóð hins vegar 'synir guðs'. Þegar Dauðahafshandritin fundust síðan, þá kom í ljóst hebreskur texti sem var um það bil þúsund árum eldri en elstu masóretísku textarnir. Það vildi svo til að þeir textar voru sammála gríska textanum: synir guðs.

Nú er bara spurning hvort Þjóðkirkjan taki upp trú á heilaga 'ferningu': Jahveh, Herra Andi, Jesús og afi hans, Hinn hæsti (El-eljon).


orð GUÐS til þín

Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ,,Vér skulum fara og dýrka aðra guði,`` þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. (Fimmta bók Móse 13:6-10)

Og svo smá ritskýring frá þjóðkirkjuprestinum Erni Bárði:

Ég minnst þess þegar ég var við nám í guðfræði hvað það kom mér og öðrum nemendum á óvart hve mikil áhersla er lögð á mannréttindi í Gamla testamentinu.#


Að kitla eyrun

Síðastliðinn sunnudag þurftu prestar þjóðkirkjunnar að predika um þessi vers:

Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: ,,Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.``Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: ,,Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.`` En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: ,,Hver getur þá orðið hólpinn?`` Jesús horfði á þá og sagði: ,,Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt.`` (Mk 10:23-27)

Á bloggsíðu sinni segir þjóðkirkjupresturinn  Baldur Kristjánsson að það "segi sig sjálft" að feitletruðu ummæli Jesú vísi til þess að það hafi verið til hlið í Jerúsalem sem hét Nálaraugað 
sem varsvo þröngt að kameldýr komst ekki í gegnum það með byrgðar á bakinu. 
Ég spurði hann tvisvar að því hvers vegna hann hélt að þetta væri raunin, í bæði skiptin 
var svarið að það segði sig bara sjálft.

Ég ákvað að kíkja á hvað fræðimenn höfðu um þetta að segja, greinar í fræðiritum á netinu höfnuðu þessu án nokkurra útskýringa, þannig að ég kíkti á ritskýringarrit á Landsbókasafninu. Ég byrjaði á Word Biblical Commentary um viðeigandi hluta og þar stóð:

"When Jesus says trumalias rafidos, "eye of a needle," he means just that. He is not talking about a small gate somewhere in the walls of Jerusalem through which camels may have passed with great difficulty. The so-called Needle Gate that the locals show to gullible pilagrims to the Holy Land cannot be dated any earlier than the Middle ages (usually to Theophylact)"

Síðan var bent á svipuð dæmi úr ritum gyðinga. Önnur ritskýringarrit tóku undir þetta og maður þarf ekki nema að lesa textann til þess að sjá að þessi miðaldaskýring (þessi Theophylact er frá 11. öld) er út í hött.

Ef Jesús var bara að segja að það væri jafn erfitt fyrir auðmann að komast til himnaríkis og fyrir úlfalda að komast inn um hlið sem hann rétt svo passaði í, þá væru viðbrögð lærisveinanna óskiljanleg: "En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: ,,Hver getur þá orðið hólpinn?"

Nei, í guðspjallinu er Jesús hreinlega ekki bjartsýnn á örlög auðmanna. En að allt öðru máli: Fyrir tveimur árum síðan voru lægstu byrjunarlaun presta 420 þúsund krónur á mánuði.  Sumir 
þeirra eru með miklu hærri laun. Prestagreyin telja nálaraugað greinilega ekki vera of lítið fyrir andlega menn eins og þá, því núna í september var þetta ákveðið á stjórnarfundi Prestafélags Íslands:

Helstu áherslur fyrir kjararáð eru eftirfarandi: Allir prestar hafi sömu grunnlaun. Lögð verði áhersla á hækkun grunnlauna og að fleiri einingar fari inn í grunnlaun þar sem það leiði til hærri lífeyris presta. 

Að drepa börn

Ég held að allt heilbrigt fólk sé sammála því að það sé rangt að drepa börn (mikið af kristnu fólki finnst reyndar ekkert athugavert við að guð þeirra drepi og fyrirskipi morð á börnum í biblíunni). Ef við ímyndum okkur hins vegar að sumt af því sem sumt kristið fólk heldur fram sé satt, þá væri hámark góðmennskunnar að drepa börn.

Gefum okkur að þetta sé satt:

  1. Öll börn sem deyja fara sjálfkrafa til himna og lifa þar í alsælu að eilífu.
  2. Fullorðið fólk sem deyr fer annað hvort til himna (og lifir þar í alsælu að eilífu) eða þá til helvítis og kvelst þar að eilífu.
Ef þetta væri satt, þá er hugsanlegt að barn sem fullorðnast eigi eftir að lenda í helvíti.

Með því að drepa barnið væri maður að koma í veg fyrir að það geti mögulega kvalist að eilífu.

Þannig að ef þetta er satt, þá væri það mjög göfugt af manni að drepa börn.

Hinn andsetni Jesús

Fáir átta sig á því að í byrjun Markúsarguðspjalls virðist Jesús vera andsetinn:

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan. Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður í sig eins og dúfu. Og rödd kom af himnum: ,,Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.`` Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,... (Mk. 1:9-12)

Í íslensku þýðingunni er sagt að andinn hafi stigið niður 'yfir' Jesú en ekki 'í' hann. 
Í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli er notað gríska orðið 'epi' sem þýðir sannarlega yfir. 
En í Markúsarguðspjallistendur hins vegar að andinn hafi farið 'eis' Jesú, inn í Jesú. Ef við skoðum aðra staði í Markúsarguðspjalli þar sem þessi forsetning er notuð í sambandi við anda, þá er augljóst að andinn fer í viðkomandi:

Og þeir [illu andarnir] báðu hann [Jesú] : ,,Send oss í svínin, lát oss fara í þau!`` Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar. (Mk. 5:12-13)

Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: ,,Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann.``(Mk. 9:25)

Miðað við þessi dæmi, þá er líklegt að höfundur Markúsarguðspjalls hafi ímyndað sér að við 
skírnina hafi andi stigið niður af himnum og andsetið Jesú. 

Næsta vers virðist taka allan vafa af þessu, þar 'knýr' andinn Jesú út í óbyggðina. Orðið sem er þýtt 
sem 'knúði' þýðir orðrétt 'að henda (út)' og er meðal annars notað um að reka út illa anda og reka 
fólk í burtu (Mk. 11:15). Andinn sem er nýfarinn inn í Jesús virðist sem sagt taka völdin og rekur Jesú út í óbyggðina.

Þetta væri afskaplega ómerkilegt ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þetta passar engan veginn við trúarhugmyndir kristinna manna. Samkvæmt þeim þá hefur Jesús alltaf verið guð og hluti af þrenningunni. Það að einn hluti þrenningarinnar hafi andsetið annan hluta þrenningarinnar og stjórnað honum er auðvitað afar undarlegt.

Hvernig frelsast maður kona?

Það er algengt að kristnir menn boði þá villukenningu að konur öðlist frelsi með því að trúa á Jesú Krist. Ég verð alltaf jafn hissa á því hve mikið af sannkristnu fólki fellur fyrir þessar óbiblíulegu kenningu. Já, hún er klárlega óbiblíuleg:

En hún [konan] mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti. (1. Tím. 2:15)

Hún mun hólpni verða, sakir barnburðarins. Trúin er auðvitað líka nauðsynleg, en það er meiri áhersla lögð á barnburðinn.  

orð GUÐS til þín

elskaovini

Jesús sagði: "En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."

Lúk 19:27


Falsspámaðurinn

Jesús spáði:

"Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu." (Mt 16:27-28)

Ég held að það sé óumdeilanlegt að heimurinn hafi ekki endað á lífstíð þeirra manna sem hlustuðu á þessi orð Jesú. Þannig að þessi spádómur Jesú rættist augljóslega ekki. Jesús var falsspámaður.

Nema auðvitað að Jesús hafi ekki sagt þetta. Ég get alveg fallist á að guðspjöllin séu ekki áreiðanleg.

orð GUÐS til þín

jesuselskarthig

Jesús: "Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna."

                                               Mt. 13:40-42


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband