14.1.2009 | 05:38
Játning þjóðkirkjuprests
Fyrir nokkrum dögum síðan skrifaði ríkiskirkjupresturinn Baldur Kristjánsson athugasemd við færslu mína um játningu Einars Sigurbjörnssonar. Hérna er áhugaverði hluti athugasemdarinnar:
Jesús talar þannig að hann búist við því að hinir síðustu tímar séu nálægir. Hann meira að segja reiknar með því að samtíðarmenn hans muni upplifa þá tíma, sem rætist ekki, ekki í fljótu bragði séð. Þetta er sannarlega umhugsunar virði.
Nú væri gaman að vita hvort Baldur telji að Jesús hafi ekki sagt þessi ummæli sem honum eru eignuð í guðspjöllunum, það er að segja hvort guðspjöllin séu óáreiðanleg, eða þá hvort Jesús hafi bara verið falsspámaður.
Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem ég sé ríkiskirkjuprest minnast á þessar vandræðalegu spár Jesú og ég er ekki bjartsýnn á að Baldur muni ræða meira um þetta, ríkiskirkjuprestar virðast ekki hafa mikinn áhuga á umræðum um kristna trú.
11.1.2009 | 19:51
Kristið siðgæði og þjóðarmorð
Mér finnst það kristna fólk sem vegsamar kristið siðgæði mest eiga í mestum erfiðleikum með að svara afskaplega einföldum spurningum um siðferði. Tökum sem dæmi þessa spurningu:
Er rétt að eyða þjóð vegna einhvers sem forfeður þeirra gerðu hundruðum ára áður?
Ég held að flest fólk ætti ekki í neinum erfiðleikum með að segja: Nei, auðvitað er það rangt., en trúvarnarmanninum Guðsteini Hauki finnst þetta vera afskaplega erfið spurning, þetta er svarið hans:
Ég get ekki svarað þessu með vissu þar sem mig vantar forsendur sem hvurgi hafa komið fram. #
Vandamálið er það að ég hafði nýlega bent honum á skipun frá guðinum hans í Gamla testamentinu. Legó-biblían segir skemmtilega frá þessu. En hérna eru versin sem skipta máli, Samúel segir við Sál:
Svo segir Drottinn herskaranna: Ég vil refsa Amalekítum fyrir það sem þeir gerðu Ísrael: Þeir lokuðu leiðinni fyrir Ísrael þegar hann fór út úr Egyptalandi. Nú skaltu fara og sigra Amalek. Helgaðu þá banni og allt sem þeim tilheyrir. Hlífðu engum. Dreptu karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, kameldýr og asna. (1Sam 15.2-3)
Þannig að Sál á að fremja þjóðarmorð á Amalekítum fyrir það sem forfeður þeirra gerðu við Ísraelsmenn hundruðum árum áður. Þetta geta Guðsteinn og aðrir trúvarnarmenn ekki fordæmt með sínu kristilega siðgæði.
10.1.2009 | 22:56
Einar Sigurbjörnsson viðurkennir að Jesús var falsspámaður
Í bókinni Credo eftir Einar Sigurbjörnsson, sem hann notar til að kenna tilvonandi prestum ríkiskirkjunnar, er þessa játningu að finna:
Framtíðarvonir Nýja testamentisins bindast voninni um endurkomu Jesú sem dómara. Á elstu stigum hefur vonin um yfirvofandi komu Jesú verið sterk og virðist Jesús sjálfur hafa gengið út frá því í prédikun sinni:
Sannlega segi ég yður þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. (Mk 13.30) bls 457
Það er auðvitað merkilegt að Einar skuli viðurkenna að Jesús hafi verið falsspámaður, en það er enn merkilegra að Einar reynir ekki að útskýra hvers vegna þetta þýði ekki að kristni sé bull og vitleysa. Ef Jesús hélt að heimsendir hefði átt að koma fyrir næstum því 2000 árum síðan, hvers vegna í ósköpunum ætti maður að trúa öllu hinu sem er eignað honum í guðspjöllunum?
Það er líka merkilegt að þetta er að ég held eina umfjöllunin sem ég hef rekist á hjá ríkiskirkjufólki um þessa vandræðalegu staðreynd, að Jesús guðspjallanna var falsspámaður. Gungurnar þora ekki að ræða um þetta.
2.1.2009 | 02:15
Bréf til prests
Ég var rétt í þessu að senda ríkiskirkjuprestinum Gunnari Jóhannessyni tölvupóst. Ég á ekki von á því að hann svari mér, hann hefur ekki gert það hingað til. Hérna er pósturinn:
Sæll Gunnar JóhannessonÉg rakst rétt áðan á ummæli í grein [1] sem þú skrifaðir í Morgunblaðinu fyrir um það bil ári síðan. Þar segirðu að um eða yfir 90% [Íslendinga] aðhyllist kristna trú. Mér fannst þetta afskaplega undarlegt þar sem þú sagðir þetta í einni predikun þinni: Ef við gerum það, ef við sviptum Jesú guðdómi sínum, þá fyrirgerum við einnig rétti okkar til að kalla okkur kristin.[2]
Nú hafa verið gerðar kannanir á trúarhugmyndum Íslendinga. Í tveimur vönduðum rannsóknum sem guðfræðideild Háskóla Íslands sá um var einmitt spurt út í guðdóm Jesú. Í báðum könnununum sögðust rétt undir 45% að Jesús væri sonur guðs og frelsari [3].
Væri þá ekki réttara að segja að um 45% Íslendinga aðhyllist kristna trú?
bestu kveðjur,
Hjalti Rúnar Ómarsson
[1] Umburðarlyndi og jafnrétti til hvers og fyrir hvern? Mogginn 22.01.2008
[3] Pétur Pétursson og Björn Björnsson, Ritröð guðfræðistofnunar 3. Trúarlíf Íslendinga 1990. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2004
1.1.2009 | 23:01
Starfsmenn Þjóðkirkjunnar eru ekki hyski
Mér finnst það rangt hjá Páli Baldvini að kalla starfsmenn ríkiskirkjunnar hyski. Þetta er í raun bara innantómt uppnefni sem bætir litlu við umræðuna.
Ríkiskirkjuprestar og biskupar hennar eru hins vegar upp til hópa hræsnarar, lygarar og gungur.
Þeir eru hræsnarar meðal annars af því að þeir með meira en hálfa milljón króna byrjunarlaun, en segjast fylgja manni sem fyrirskipaði fylgjendum að selja eigur sínar og gefa fátækum peninginn (Lk 12.33).
Þeir eru lygarar meðal annars af því að þeir vita að margt af því sem er eignað Jesú í guðspjöllunum er ekki komið frá honum. Gott dæmi um lygi ríkiskirkjumanna eru svör Biskupsstofu þegar 24 stundir spurðu Karl Sigurbjörnsson að því hvort hann myndi gifta samkynhneigt par, biskupinn hafði víst ekki tíma til þess að segja Nei.
Þeir eru gungur af því að þeir þora ekki að tjá sig um suma hluti. Karl þorir til dæmis ekki að viðurkenna að hann myndi aldrei blessa hjónaband samkynhneigðra. Þeir þora ekki heldur að viðurkenna að þeir trúi ekki á helvíti (og væru þar af leiðandi fordæmdir í játningum sinnar eigin kirkju).
Þannig að ég mæli með því að fólk kalli ríkiskirkjupresta og biskupa ekki hyski, heldur hræsnara, lygara og gungur.